Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 568/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 568/2022

Mánudaginn 27. febrúar 2023

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 5. desember 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 8. nóvember 2022 vegna umgengni hans við dóttur sína, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan C er X ára gömul og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Stúlkan hefur verið í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum frá 1. september 2022 en hefur búið á fósturheimilinu frá desember 2020. Kærandi, sem er kynfaðir stúlkunnar, var ásamt móður sviptur forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms B þann 27. janúar 2022. Móður var synjað um áfrýjunarleyfi til Landsréttar þann 15. mars 2022 og kærandi féll frá áfrýjun til Landsréttar þann 25. ágúst 2022.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 8. nóvember 2022. Fyrir þeim fundi lá fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 26. október 2022. Úrskurður var kveðinn upp í málinu þann 8. nóvember 2022. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að C, skuli hafa umgengni við föður sinn, A, fjórum sinnum á ári, í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti og í húsnæði barnaverndaryfirvalda á O í febrúar, maí, ágúst og nóvember ár hvert. Fósturforeldrum er frjálst að vera viðstaddir umgengni kjósi þeir það. Skilyrði fyrir umgengni er að faðir sé edrú og í andlegu jafnvægi að mati starfsmanna.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 5. desember 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 14. desember 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 20. desember 2022 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2022, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust með bréfi, dags. 3. janúar 2023, og voru þær sendar barnaverndarnefndinni til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar 5. janúar 2023. Viðbótargreinargerð barnaverndarnefndarinnar barst með bréfi, dags. 18. janúar 2023, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. janúar 2023, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust með tölvupósti 24. janúar 2023 og voru þær sendar barnaverndarnefndinni til kynningar með bréfi, dags. 26. janúar 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að hann hafi umgengni við dóttur sína mánaðarlega, tvær klukkustundir í senn, líkt og verið hefur.

Til vara krefst kærandi þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að umgengni verði meiri og ef til vill önnur en sú sem lögð hafi verið til í úrskurðarorði hins kærða úrskurðar. Þá sé þess krafist að tekin verði afstaða til þess hvort faðir geti fengið aukna umgengni umfram fjögur skipti á ári, í formi myndsímtala.

Kærandi telur að ekki séu rök fyrir því að synja um aukna umgengni hans við dóttur sína. Kröfur sínar styður kærandi að meginstefnu við eftirfarandi málsástæður:

Friðhelgi einkalífs og velferð barna

Kærandi vísar til þess að allir eigi stjórnarskrárvarinn rétt til friðhelgis einkalífs, fjölskyldu og heimilis sem ekki verðir skertur nema með lögum og að brýna nauðsyn beri til, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá sé vísað til 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Nefnt ákvæði eigi sér meðal annars stoð í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem öðlaðist lagagildi hér á landi með lögum nr. 19/2013. Þar segir í 1. mgr. 3. gr. að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld og löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Í 1. mgr. 9. gr. samningsins segir að börn skuli ekki skilin frá foreldrum sínum, nema aðskilnaðurinn sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins og ákvörðun þar um sé tekin af lögbæru stjórnvaldi en slík ákvörðun sé háð endurskoðun dómstóla.

Það sem sé barni fyrir bestu

Kærandi byggir á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. barnalaga á hvert barn rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur fram fyrrgreind regla um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess. Í 2. gr. barnaverndarlaga kemur fram það meginmarkmið þeirra og tilgangur barnaverndarstarfs að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga kemur fram að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og að hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda.

Kærandi byggir á því að fyrst og fremst beri að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkan hafi af umgengni við kæranda. Í hinum kærða úrskurði sé lítt rökstutt hvernig nefndin telji það vera barninu fyrir bestu að lágmarka tengsl þess við kæranda með þeim hætti að takmarka umgengni við fjögur skipti á ári í stað mánaðarlegrar umgengni. Virðist sú niðurstaða byggjast á þríþættum grunni: 1) að stúlkan sé í varanlegu fóstri, sem sé þó ekki endanleg ráðstöfun 2) vegna þess að merki um vanlíðan stúlkunnar hafa komið fram í umgengni og í kringum umgengni samkvæmt eftirlitsaðilum, fósturaðilum sem og starfsmönnum leikskóla stúlkunnar 3) til þess að stuðla að ró og stöðugleika í lífi stúlkunnar svo að hún fái tækifæri til að treysta sínu nánasta umhverfi og aðlagast fósturfjölskyldu sinni.

Kærandi tekur undir það sjónarmið í niðurstöðu úrskurðarins að það sé barninu hans fyrir bestu að svo stöddu að fá ró og stöðugleika í líf sitt og tækifæri til að treysta sínu nánasta umhverfi, meðal annars fósturfjölskyldu sinni. Kærandi byggi á hinn bóginn á því að ekkert bendi til þess að þessum markmiðum, sem og tækifærum barnsins til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni, sé betur náð með því að einskorða umgengni kæranda við fjögur skipti á ári í stað mánaðarlegrar umgengni. Ef tilgangurinn með takmörkuninni sé að minnka skammvinna depurð eða óstöðugleika barnsins skömmu eftir umgengni eða í umgengninni sjálfri þá ber Barnavernd B skylda til, samkvæmt lögmætisreglu íslensks stjórnsýsluréttar, að rökstyðja það sérstaklega í ljósi ríkra hagsmuna aðila málsins.

Kærandi byggir á því að takmörkun á umgengni samkvæmt niðurstöðu hins kærða úrskurðar sé raunar til þess fallin að stuðla að frekara tengslarofi á milli kæranda og barns, sbr. meðal annars mat sálfræðings, dags. 20. ágúst 2021, sem vísað sé til í hinum kærða úrskurði, sem og vanlíðan barnsins í daglegu lífi almennt sem og vanlíðan barnsins í umgengni og eftir umgengni. Hvað varðar skammvinna depurð eða óstöðugleika barnsins eftir eða í umgengni við kæranda, sem hinn kærði úrskurður vísar til, telur kærandi þá samantekt á umgengni hans við barnið síðastliðin tvö ár vera ranga eða í besta falli villandi af eftirlitskýrslum að ráða. Í nánast öllum skýrslum eftirlitsaðila um umgengni sé sérstaklega bókað að barnið hafi ánægju af því að hitta hann og/eða hlaupi í fangið á honum við upphaf hittinga og skilji langoftast við kæranda kát og sátt, að mati eftirlitsaðila. Raunar sé aðeins um þrjú skipti að ræða þar sem barnið hafi verið lítið í sér og grátið við upphaf umgengni, en kærandi náði í einu þessara skipta að snúa leiðanum í gleði og hafi þá verið bókað að barnið hafi farið sátt frá þeirri umgengni. Því sé aðeins um að ræða tvö skipti síðastliðið vor þar sem barnið vildi ekki fara til kæranda og brást kærandi með eindæmum vel við þeim krefjandi aðstæðum og hafði hag barnsins að leiðarljósi þó svo að kæranda sárnaði mjög að finna fyrir tengslarofinu á milli þeirra. Frá því í sumar hafi barnið verið öruggara í umgengni við kæranda og fari ekki á milli mála að nýjustu umgengnisskýrslur gefi til kynna að hún hafi ánægju af umgengni við kæranda. Kærandi byggir á því að það séu merki um að regluleg mánaðarleg umgengni sé að skila sér vel og fyrirkomulagið sé til þess fallið að viðhalda tilfinningatengslum feðginanna, að samband þeirra styrkist og traustið verði endurbyggt þeirra á milli. Þessu til rökstuðnings vísar kærandi til þess að samkvæmt nýjustu eftirlitsskýrslum, dags. 6. september, 9. ágúst og 28. júní [2022], bendi allt til þess að framför hafi orðið í umgengni þar sem greint sé frá því að barnið hafi tvímælalaust ánægju af samverustundunum og sýni kæranda athygli og hlýju. Nánar segir í nýjustu skýrslu frá 6. september síðastliðnum:

„A var duglegur að hrósa dóttur sinni fyrir hvað hún væri dugleg að hjóla og var almennt hvetjandi jákvæður gagnvart henni. Hann talaði við stúlkuna um að hann elskaði hana og saknaði hennar en var ánægður með að henni liði vel hjá fósturforeldrum sínum.

Umgengnin gekk í alla staði mun betur en síðasta umgengni sem undirrituð var viðstödd í júní og greinilegt var að stúlkan var mun öruggari núna gagnvart A.. Hún var strax tilbúin að leyfa fósturföður að fara og virtist njóta sin vel í umgengninni. Hún var frjálsleg gagnvart kynföður sínum og leitaði eðlilega til hans. Hann mátti faðma hana og hún var tilbúin að sitja hjá honum og vera í fangi hans. Hin tjáði sig óhikað um sína hagi hjá fósturforeldrum sem hún talaði mjög jákvætt um sem og fóstursystkini sin. Hún spurði ekkert um hagi A eða annarra í sinni upprunafjölskyldu. A sýndi dóttur sinni hlýju og áhuga og var kurteis í samskiptum við fósturföður og undirritaða. C kvaddi A sátt og fór glöð með fósturföður þegar umgengninni var lokið.“

Kærandi byggir á því að minnkun umgengni á þessu stigi máls muni raska þeim framförum í þroska, getu og/eða líðan sem barnið hefur náð á fósturheimili, í leikskóla og í sambandi sínu við kæranda sem gögnin greina glögglega frá. Það að stuðla að frekara tengslarofi á þessu stigi á milli kæranda og barnsins, sem er enn mjög ungt barn sem hefur varið miklum tíma með kæranda og tengst honum sterkum tilfinningaböndum, stríðir gegn rétti barnsins til að viðhalda tengslum sínum við kynforeldri sitt, sbr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Fyrirséð er, út frá mynstri í eftirlitsskýrslum, að minnkuð umgengni á þessu stigi muni ala á tengslarofi og þar af leiðandi minnka áhuga og vilja barnsins til að hitta kæranda í umgengni og að þau fáu skipti sem umgengni fari fram skilji þau eftir sig neikvæða minningu hjá barninu. Tvö stök skipti sem barnið vildi ekki fara til kæranda í umgengni frá því að hún var vistuð í fóstur eða skamvinn depurð barnsins í kringum umgengni í einhverjum tilvikum, sé ekki fullnægjandi röksemdafærsla fyrir því að það sé barninu fyrir bestu að minnka umgengi við kynforeldri, sbr. 1. mgr. 46. gr. barnalaga. Kærandi byggir á því að þetta séu eðlileg viðbrögð og ekkert ósambærilegt því sem þekkist hjá börnum sem dvelja hjá umgengnisforeldri aðra hvora helgi. Kærandi byggir á því að einhver neikvæð tilfinningaviðbrögð barnsins í tengslum við umgengni við hann stafi af því að hún sé enn að venjast nýjum heimilisaðstæðum, fyrirkomulagi um mánaðarlega hittinga við kæranda og sambandsslitum við kynmóður barsins. En sem fyrr segir hafi síðustu skipti í umgengni ekki sýnt nein einkenni af þessu tagi og ekkert bendir til þess að umgengni muni ekki halda áfram í þeim góða farvegi samkvæmt fyrirkomulagi um umgengni sem ríkt hafi síðastliðin tvö ár.

Þegar til alls framangreinds sé litið og sérstaklega með það í huga hve ánægt barnið hefur verið í umgengni almennt, einkum síðustu skiptin, hve augljósa og ríka tengingu feðginin hafi samkvæmt eftirlitsskýrslum í umgengni, hve mikla nærgætni, skilning og leikgleði kærandi sýni dóttur sinni í umgengni, aukið innsæi kæranda í persónulegar aðstæður sínar og í ljósi edrúmennsku hans sem og þeirrar staðreyndar að ákvörðun um fósturvist barnsins sé ekki endanleg, beri að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og fallast á kröfu kæranda vegna hagsmuna barnsins.

Réttur barns til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra

Kærandi byggir á 1. mgr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, þar sem fram kemur að barn skuli, eftir því sem unnt er, eiga rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Þá er jafnframt mælt fyrir um það í 8. gr. samningsins að aðildarríki skuldbindi sig til þess að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með töldum fjölskyldutengslum eins og viðurkennt er með lögum, án ólögmætra afskipta. Réttur barns til að þekkja uppruna sinn hefur einnig verið talinn felast í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem kveður á um réttinn til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.

Í ljósi framangreinds telji kærandi að of langt sé gengið með því að takmarka umönnun hans við barn sitt við umgengni fjögur skipti á ári. Með því sé gengið á rétt barns kæranda til að þekkja foreldri sitt og njóta umönnunar þess. Á það einkum við í ljósi ungs aldurs barns kæranda. Svo takmörkuð samskipti á fyrstu æviárum geti haft alvarlegar og varanlegar afleiðingar á tengslamyndun barns við foreldri. Líta verður til þess að fósturvistun stúlkunnar utan heimilis sé ekki endanleg ráðstöfun. Kærandi vísar til þess að athugasemdir í eftirlitsskýrslum um umgengni beri með sér að kærandi þekki barnið sitt og sinni umönnunarþörfum þess vel, sjá til rökstuðnings eftirfarandi athugasemd frá umgengni 23. október 2021 sem sé ein af mörgum skýrslum sem votta um djúp tilfinningaleg tengsl feðginanna:

„Í heild sinni gekk umgengnin mjög vel fyrir sig. C sótti mikið í föður sinn og vildi vera í fangi hans. A var sömuleiðis natinn við hana; kyssti og knúsaði við hvert tækifæri. A virtist þekkja dóttur sína nokkuð vel, hann sá á henni þegar hún þurfti að komast á klósett og vissi að hún kysi svala fram yfir kókómjólk. Auk þess vissi hann greinilega hvers kyns gjafir myndu njóta vinsælda hjá henni.“

Umgengnisréttur

Kærandi byggir á gagnkvæmum umgengnisrétti barns og foreldris sem kveðið er á um í 46. gr. barnalaga. Barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldri sitt sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess, sbr. 1. mgr. 46. gr. barnalaga. Að sama skapi á foreldri, sem barn býr ekki hjá, í senn rétt og ber skylda til að rækja umgengni við barn sitt, sbr. 2. mgr. 46. gr. barnalaga. Kærandi vísar til 70. gr. barnaverndarlaga þar sem kemur fram að eftir að foreldri hefur afsalað sér umsjá eða forsjá eða verið svipt umsjá eða forsjá barns samkvæmt ákvæðum laganna, eigi barn rétt á umgengni við foreldra eða aðra sem séu því nákomnir, enda samrýmist það hagsmunum þess. Í sama ákvæði kemur fram að um umgengni fari í öllum tilvikum samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga, óháð því hver taki við umsjá eða forsjá barns. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því séu nákomnir. Þá eiga foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps sem varð að barnaverndarlögum segir jafnframt að ef neita eigi um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verði að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins. Í hinum kærða úrskurði sé umgengnisréttur kæranda takmarkaður verulega, án þess að sýnt sé fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins. Kærandi byggir á því að þvert á móti séu það mikilvægir hagsmunir barnsins að njóta aukinnar umgengni við föður sinn, sbr. framangreindar röksemdir um gagnkvæman umgengnisrétt og það sem er barni fyrir bestu.

Þess fyrir utan sé niðurstaða hins kærða úrskurðar ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með fósturráðstöfun barnsins sem hefur ekki verið ákvörðuð endanlega. Þá byggir kærandi á því að hann hafi enn rétt á að krefjast endurskoðunar ráðstafana barnsins samkvæmt 34. gr. barnaverndarlaga og að niðurstaða hins kærða úrskurðar raunar fyrirgeri umræddu réttarúræði kæranda þar sem niðurstaðan ali á tengslarofum á milli feðginanna með óafturkræfum hætti. Við matið verði að líta til þess að móðir stúlkunnar hefur ekki leitast eftir því að eiga umgengni við stúlkuna, ólíkt kæranda sem leggi sig allan fram við að viðhalda edrúmennsku sinni og búa til stöðugleika í sínu lífi sem skapar ró og öryggi í líf dóttur hans. Þá hafi kærandi verið allsgáður síðastliðna sex mánuði sem virðist ekki hafa verið sérstaklega tekið tillit til í niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Meðalhóf

Kærandi vísar til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Skuli ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og aðeins skuli beitt íþyngjandi ráðstöfunum þegar lögmæltum markmiðum verður ekki náð með öðru og vægara móti. Af ákvæðunum leiðir að úrskurður um umgengni verði að vera til þess fallinn að ná því markmiði sem að sé stefnt, að vægasta úrræði sé beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi. Kærandi telur hinn kærða úrskurð brjóta í bága við framangreinda meðalhófsreglu barnaverndarlaga sem og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 38. gr. barnaverndarlaga. Í þessu tilfelli sé markmiðið einkum að gera það sem er börnunum fyrir bestu, auk þess að framfylgja gagnkvæmum rétti foreldris og barns til umgengni. Kærandi byggir á því að svo veruleg takmörkun á umgengni svo sem kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði, hafi ekki falið í sér nægilega hófsama beitingu á umræddu úrræði.

Kærandi er góður faðir

Kærandi vekur athygli á hve skilningsríkur, nærgætinn og stuðningsríkur hann hafi verið í garð tilfinningamyndunar barnsins við fósturfjölskylduna og að það hafi verið sérstaklega tilgreint af eftirlitsaðilum í skýrslum um umgengni, til að mynda í þeirri nýjustu frá 6. september [2022]. Að sama skapi beri eftirlitskýrslur frá því í maí og apríl með sér að kærandi hafi sýnt fram á mikinn tilfinningaþroska varðandi hvernig hann tókst á við þær krefjandi aðstæður í tvö skipti þegar barnið vildi ekki fara til hans í umgengni. Þá hvatti hann til þess að umgengni yrði slitið í viðkomandi skipti, kvaddi barnið hughreystandi og hélt aftur af eigin tilfinningum. Viðbrögð hans í krefjandi aðstæðum sem þessum sýna að kærandi sé fær um að setja hagsmuni barnsins fram yfir eigin hagsmuni og að hann hafi öðlast meira innsæi í eigin aðstæður, sýni góða dómgreind og lesi þarfir barns síns vel. Kærandi hafi verið allsgáður síðastliðið ár og hafi unnið hörðum höndum að því að byggja upp stöðugleika í lífi sínu og hefur það gengið vel.

Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til sálfræðilega mats á forsjárhæfni föður, dags. 20 ágúst 2021, þar sem fram komi meðal annars að kærandi þurfi að öðlast „meira innsæi í alvarleika fíknivanda síns“ og að hann skorti „ýmis tengsl við stúlkuna, líðan hennar og framtíð.“ Samkvæmt framangreindu og áður röktum athugasemdum um framkomu kæranda í umgengni sé ljóst að kærandi hafi tekið verulegum framförum hvað þessi atriði varðar. Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun hafi meðal annars verið grundvölluð á meira en ársgömlu sálfræðimati sem sé bersýnilega á skjön við raunverulega afstöðu kæranda til aðstæðna sem þau feðginin séu í. Þetta sé ekki aðeins huglæg afstæða kæranda heldur renna nýjustu eftirlitsskýrslur stoðum undir það að meira en ársgamalt mat endurspegli ekki raunveruleikann hvað varðar aðstæður dóttur hans og tengsl hans við hana. Kærandi byggir á því að í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið horft til þessara atriða, þ.e. að ekki hafi verið tekið tillit til aukins þroska hans og innsæis í aðstæður þeirra feðgina sem sýni fram á að hann sé góður faðir.

Aðrar færar leiðir

Á grundvelli meðalhófsreglu ber barnavernd jafnframt að reyna aðrar vægari leiðir til að ná sama markmiði. Þá væri einnig vægara úrræði að veita föður umgengni fjórum sinnum á ári á O en veita honum jafnframt umgengni í formi myndsímtala 4-10 sinnum á ári samhliða því. Kærandi óskar eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála taki sérstaklega afstöðu til tillögu þessarar á grundvelli meðalhófsreglunnar.

Í athugasemdum við greinargerð barnaverndarnefndarinnar kemur fram að áréttuð sé málafærsla kæranda um að barni hans verði ómögulegt að viðhalda og/eða styrkja þau tengsl sem voru fyrir hendi þegar barnið fór í fóstur. Kærandi hafni því sjónarmiði sem sé haldið uppi í greinargerðinni þar sem segir að „Umgengni í varanlegu fóstri er ekki til þess að styrkja tengsl barna við kynforeldra sína (...).“ Skýrt komi fram í 3. mgr. 74. gr. laga nr. 80/2002 að við ráðstöfun barns í fóstur skuli taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og skuli tekið mið að því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Kærandi áréttar það sjónarmið að það sé barni hans fyrir bestu að viðhalda og ef til vill styrkja tengsl við hann, sér í lagi með það fyrir augum að fósturúræði barnsins sé ekki endanleg ráðstöfun og að kynmóðir barnsins óski ekki eftir umgengni við barnið.

Kærandi taki undir þau sjónarmið Barnaverndar B að það sé barni hans fyrir bestu að fá ró og stöðugleika í uppeldi sínu. Kærandi telur að því markmiði sé best náð með aukinni umgengni hans við barnið, til að mynda í formi myndsímtala, svo að barnið venjist því meðal annars að kærandi sé til staðar og að sú staðreynd ýti undir stöðugleika í lífi þess. Umgengni í stafrænu formi hefur til dæmis þá kosti að hún raskar litlu í hversdagslífi barnsins þar sem hún getur farið fram á tímum og í umhverfi sem hentar barninu best og jafnframt getur barnið svo snúið sér aftur að daglegum athöfnum  að hittingnum loknum. Ekki eru færð rök fyrir því í greinargerð Barnaverndar B hvernig hittingar af þessu tagi kunni að raska ró og stöðugleika barnsins. Fyrirséð sé að þessi tegund af samskiptum muni hjálpa barninu að venjast því að kærandi sé enn faðir hennar, án þess að raska möguleikum stúlkunnar til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni með neinum hætti.

Minnkuð umgengni á þessu stigi muni hins vegar ala á tengslarofi og þar af leiðandi minnka áhuga og vilja barnsins til að hitta kæranda í umgengni og í þau fáu skipti sem umgengni fari fram þá muni hún skilja eftir sig neikvæða minningu hjá barninu. Slíkt mun leiða til óstöðugleika og vanlíðanar í lífi barnsins sem og stuðla að varanlegu tengslarofi við kynforeldri sem kærandi telur ekki vera barninu fyrir bestu.

Þá áréttar kærandi að þau tvö stöku skipti sem barnið vildi ekki fara til kæranda í umgengni frá því að það var vistað í fóstur eða skammvinn depurð barnsins í kringum umgengni í einhverjum tilvikum, séu ekki fullnægjandi röksemdafærsla fyrir því að það sé barninu fyrir bestu að minnka umgengi við kynforeldri, sbr. 1. mgr. 46. gr. barnalaga.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að kærandi hafi verið sviptur forsjá dóttur sinnar í Héraðsdómi B þann 27. janúar 2022. Hann hafi áfrýjað málinu til Landsréttar en fallið frá áfrýjun málsins þann 25. ágúst 2022 og sé því ekki stefnt að því að stúlkan fari aftur í umsjá kæranda. Stúlkan hefur verið í umsjá fósturforeldra sinna í tvö ár, eða frá desember 2020 og í varanlegu fóstri þar frá 1. september 2022.

Starfsmenn Barnaverndar B hafi bókað á meðferðarfundi starfsmanna þann 28. september 2022 um umgengni kæranda við stúlkuna eftir að endanleg niðurstaða í forsjársviptingarmál á hendur honum lá fyrir. Þar komi fram að mikið rót hafi verið á stúlkunni í kringum umgengni og að umgengni hafi valdið stúlkunni vanlíðan og skapað hjá henni óöryggi. Stúlkan hafði sýnt mikla vanlíðan í og kringum umgengni, grátið og farið í mikið uppnám og viljað komast heim til O með fósturforeldrum. Slíta hafi þurft umgengni við föður eftir aðeins nokkrar mínútur. Umgengni hafði þá verið einu sinni í mánuði í T en ákveðið hafi verið í júní 2022 að færa umgengni til O þar sem stúlkan sé búsett á heimili fósturforeldra. Í eftirlitsskýrslu starfsmanna á O, dags. 5. júlí 2022, hafi komið fram að stúlkan hafi mætt illa stefnd í umgengni en náð að jafna sig. Stúlkan hafi svo farið í baklás, grátið og „límt“ sig við fósturföður þegar hann ætlaði að yfirgefa hana með föður en hún svo náð að jafna sig og hafi sest í fang eftirlitsaðila. Næsta umgengni átti sér stað þann 9. ágúst 2022 og komið hafi fram í skýrslu eftirlitsaðila að stúlkan hafi aftur „límt“ sig við fósturföður þegar hann ætlaði að yfirgefa hana með föður í umgengni. Í báðum skýrslum sé sérstaklega tekið fram að stúlkan hafi kvatt föður og verið glöð að sjá og farið með fósturföður að umgengni lokinni. Í upplýsingum frá leikskóla stúlkunnar, dags. 17. ágúst 2022, hafi komið fram að stúlkan væri lítil í sér eftir umgengni við föður og tekið hafi lengri stund að kveðja fósturforeldra sína.

Fósturforeldrar hafi talið að umgengni væri hæfileg tvisvar sinnum á ári og að umgengni yrði á O og undir eftirliti. Fram hafi komið hjá fósturforeldrum að erfitt hafi verið að horfa upp á vanlíðan stúlkunnar í kringum umgengni og spyrji stúlkan fósturforeldra endurtekið á leið heim á fósturheimilið hvort fósturforeldrar séu ekki örugglega foreldrar hennar. Þá hafi hún tjáð fósturforeldrum að hún vilji fara aftur heim á heimili fósturforeldra og hafi ekki viljað hitta kynforeldra sína aftur. Þá hafi stúlkan neitað að hitta föður á leið í umgengni, að sögn fósturforeldra.

Í bókun starfsmanna þann 28. september 2022 hafi komið fram að það væri mat starfsmanna að nauðsynlegt væri að viðhalda þeim stöðugleika, öryggi og ró í lífi stúlkunnar, enda væru það fyrst og fremst hennar hagsmunir. Starfsmenn hafi vísað í niðurstöðu Héraðsdóms B þann 20. janúar 2021 þar sem vikið hafi verið að því rótleysi sem stúlkan hafi búið við og að það kynni að hafa slæm áhrif á tengslamyndun hennar. Starfsmenn hafi talið að í ljósi þeirra áfalla og tengslarofa sem stúlkan hafi upplifað  væri mikilvægt að tengsl stúlkunnar við fósturforeldra yrðu treyst enn frekar á næstunni, enda ljóst að fósturforeldrar yrðu hennar umönnunaraðilar til framtíðar. Starfsmenn hafi því lagt til að umgengni yrði tvisvar sinnum á ári í samræmi við óskir fósturforeldra.

Í úrskurði Barnaverndarnefndar B þann 8. nóvember 2022 hafi nefndin tekið undir það mat starfsmanna að stúlkan þyrfti ró og stöðugleika til þess að fá tækifæri til að treysta sínu nánasta umhverfi og aðlagast fósturfjölskyldu sinni og tilheyra þar sem stúlkan sé nú í varanlegu fóstri hjá þeim. Nefndin taldi þó ekki rétt að skerða umgengni eins og starfsmenn lögðu til og töldu rétt að umgengni yrði fjórum sinnum á ári. Við þá ákvörðun hafi verið horft til þess að móðir stúlkunnar hafði ekki leitast eftir að eiga umgengni við hana og hafi því umgengni verið aukin þar sem tengsl föður við stúlkuna væru einu tengsl stúlkunnar við kynforeldra. Núna hafi sú staða breyst og kynmóðir stúlkunnar óskað eftir umgengni. Lögmaður föður tók það sérstaklega fram á fundi nefndarinnar þann 1. nóvember 2022 að mikilvægt væri að stúlkan nyti aukins umgengni á meðan móðir ætti ekki umgengni. Ljóst sé að sú staða sé breytt.

Í kæru til úrskurðarnefndar sé gerð krafa um að úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 8. nóvember 2022 verði hrundið og að faðir hafi umgengni við dóttur sína eins og áður var, eða í tvær klukkustundir mánaðarlega. Til vara sé þess krafist að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að faðir eigi meiri umgengni og þess sé krafist að afstaða verði tekin til þess hvort faðir geti fengið aukna umgengni umfram fjögur skipti í formi myndsímtala.

Í kæru sé vísað til þess réttar að allir eigi stjórnarskrárvarinn rétt til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis sem ekki verði skertur nema með lögum.

Þá sé til þess vísað að fyrst og fremst beri að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkan hafi af umgengni við kæranda og hvað henni sé fyrir bestu. Þá segir að úrskurður nefndarinnar byggist á þríþættum grunni; að stúlkan sé í varanlegu fóstri, vegna merki um vanlíðan stúlkunnar og til þess að stuðla að ró og stöðugleika í lífi stúlkunnar. Þá segir að samantekt á umgengni kæranda við stúlkuna síðastliðin tvö ár sé röng eða í besta falli villandi og að í nánast öllum skýrslum eftirlitsaðila sé tekið fram að barnið hafi ánægju og/eða hlaupi í fang föður í umgengni. Þá sé til þess vísað að umgengni mánaðarlega sé til þess fallin að styrkja samband föður og stúlkunnar og þannig sé hægt að endurbyggja traust þeirra á milli. Þá telji kærandi að minnkun á umgengni muni raska framförum stúlkunnar í þroska, getu og/eða líðan sem barnið hefur náð á fósturheimilinu.

Þá sé vísað til þess að viðbrögð stúlkunnar séu ekkert ósambærileg þeim sem þekkist hjá börnum sem dvelja hjá umgengnisforeldri aðra hvora helgi og vísað sé til 46. gr. barnalaga nr. 76/2003 sem kveður á um rétt foreldris til að eiga umgengni við barn sitt með reglubundnum hætti, búi barnið ekki hjá foreldrinu. Þá sé vísað til umgengnisréttar samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga, meðalhófs og að kærandi sé góður faðir. Þá sé vísað til sálfræðilegs mats á forsjárhæfni kæranda, dags. 20. ágúst 2021, um að kærandi þurfi að öðlast meiri innsæi í alvarleika fíknivanda síns og að hann skorti tengsl við stúlkuna. Vísað sé til þess að kærandi hafi tekið verulegum framförum hvað þessi atriði varði og vísað til huglægrar afstöðu hans og eftirlitsskýrslur úr umgengni.

Kærandi var sviptur forsjá með dómi Héraðsdóms B í janúar 2022 og því sé ekki stefnt að öðru en að stúlkan verði í umsjá fósturforeldra til 18 ára aldurs. Stúlkan sé aðeins fjögurra ára gömul en hafi þurft að ganga í gegnum ýmislegt, þar á meðal ítrekaðar vistanir utan heimils vegna stöðu foreldra og tengslarofs við foreldra. Vísað hafi verið til þess að faðir hyggist sækja um endurskoðun ráðstafana samkvæmt 34. gr. barnaverndarlaga þegar það eigi við en ljóst þyki að stúlkan sé nú í varanlegu fóstri og taka þurfi ákvarðanir um umgengni stúlkunnar við föður miðað við stöðu málsins í dag en ekki það sem mögulega komi til að gerast. Rétt sé að benda á að 34. gr. barnaverndarlaga sé þröngt undanþáguákvæði fyrir foreldra um að óska eftir endurskoðun forsjársviptingar og kveð á um ströng skilyrði til þess að svo megi verða.

Reglur vegna umgengni við barn í fóstri sé að finna í 74. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt 1 mgr. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem séu því nákomnir. Þá segir í 2. mgr. að foreldrar eigi sama rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim marksmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Í 25. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 komi fram að við ákvörðun um umgengni við barn í fóstri skuli tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best með því markmiði sem stefnt sé að. Í handbók Barnaverndarstofu varðandi umgengni í fóstri komi fram að við ákvörðun um umgengni barns í fóstri við kynforeldra sína eða aðra þurfi að meta í hverju einstöku tilviki þörf barnsins fyrir umgengni og hvaða áhrif umgengnin hafi á barnið. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Taka skal mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 74. gr. a. barnaverndarlaga skal ávallt kanna viðhorf fósturforeldra til umgengni áður en gengið sé frá samningi um umgengni eða kveðinn upp úrskurður um umgengni. Fósturforeldrar hafi sérstaklega óskað eftir því að umgengni yrði ákveðin tvisvar sinnum á ári með vísan til vanlíðanar stúlkunnar í kringum umgengni.

Barnaverndarnefnd B telur það afar brýnt að stúlkan fái nú ró og stöðugleika til þess að fá tækifæri til að treysta sínu umhverfi og aðlagast fósturfjölskyldu sinni þar sem hún hefur gengið í gegnum margt. Það verði því að ákveða umgengni stúlkunnar við föður í samræmi við þetta markmið og gefa stúlkunni tækifæri til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni og gefa henni ró til þess eins og úrskurðarnefnd velferðarmála hefur ítrekað staðfest í sínum úrskurðum, til dæmis í máli nr. 213/2019. Umgengni föður við stúlkuna þurfi að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með ráðstöfun stúlkunnar í varanlegt fóstur.

Umgengni í varanlegu fóstri sé ekki til þess að styrkja tengsl barna við kynforeldra sína eins og lögmaður föður vísar til eða að horfa til þess að staða föður sé nú betri en áður, að mati föður. Horfa verður til þess að umgengni sé til þess að viðhalda þeim tengslum sem voru fyrir hendi þegar barnið fór í fóstur, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 585/2021.

Ljóst þykir af frásögn fósturforeldra og skýrslum eftirlitsaðila að umgengni hafi valdið stúlkunni vanlíðan og verður stúlkan fyrir truflun af umgengni. Þá sé einnig vísað til matsgerðar sálfræðings, dags. 20. ágúst 2021, þar sem fram komi síendurtekin rof á samskiptum kæranda við stúlkuna sem smám saman hafa þróast þannig að tengsl þeirra séu blendin og óörugg. Þá komi einnig fram í matsgerð að kærandi sýni innsæisskort, bæði hvað varðar alvarleika vímuefnavanda síns en einnig hvað viðkemur tengslum hans við stúlkuna, líðan hennar og framtíð. Matsmaður hafi talið kæranda ofmeta getu sína og vægi sitt í lífi stúlkunnar. Nefndin leggi því mikla áherslu á mikilvægi þess að stúlkan fái nú ró og næði til þess að aðlagast fósturfjölskyldu sinni þannig að stöðugleiki og jafnvægi megi vera í lífi stúlkunnar.

Með vísan til alls framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd B þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í viðbótargreinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að í athugasemdum kæranda hafni hann því sjónarmiði sem fram komi í greinargerð Barnaverndar B varðandi það að umgengni í varanlegu fóstri sé ekki til þess að styrkja tengsl barna við kynforeldra og vísar til 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um að ráðstöfun barns í fóstur skuli taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og skuli tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best.

Um umgengni foreldra við börn í fóstri er fjallað í 74. gr. barnaverndarlaga. Í 2. mgr. 74. gr. kemur fram að foreldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætla að vara. Stúlkan sem um ræðir sé í varanlegu fóstri eftir að kærandi var sviptur forsjá hennar með úrskurði héraðsdóms eins og áður hefur komið fram. Skilgreining á hugtakinu varanleg fóstur er að finna í 4. tl. 3. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004 þar sem fram komi að með varanlegu fóstri sé átt við að fóstur haldist þar til forsjárskyldur falla niður samkvæmt lögum. Barni skuli komið í varanlegt fóstur þegar fyrirsjáanlegt þykir að ekki verði unnt að bæta aðstæður þess með öðrum hætti. Markmið með varanlegu fóstri sé að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika í lífi barns innan fósturfjölskyldu.

Eins og ítrekað hefur komið fram í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála sé umgengni kynforeldra við börn í fóstri ekki ætlað að styrkja tengsl þeirra heldur til að viðhalda þeim tengslum sem voru til staðar þegar barnið fór í fóstur.

Þá vísi kærandi til þess að fósturúrræði barnsins sé ekki endanleg ráðstöfun og að kynmóðir barnsins óski ekki eftir umgengni við barnið.

Eins og áður hafi komið fram sé hugtakið varanlegt fóstur skilgreint í reglugerð um fóstur. Eins og staðan er í dag sé stefnt að því að stúlkan, sem sé í varanlegu fóstri, alist upp hjá fósturfjölskyldu sinni þar til forsjárskyldur falla niður samkvæmt lögum, eða þar til stúlkan verður 18 ára gömul. Það verði því að meta umgengni út frá því og í ljósi stöðu málsins í dag.

Vísað er til þess að kynmóðir stúlkunnar hafi ekki óskað eftir umgengni en eins og komið hafi fram í greinargerð barnaverndarnefndarinnar sé það rangt. Barnaverndarnefnd B hafi úrskurðað í málinu þann 8. nóvember 2022 og aukið fjölda skipta sem faðir eigi umgengni við stúlkuna umfram tillögur starfsmanna, meðal annars á þeim forsendum að tenging stúlkunnar við föður væri eina tenging hennar við kynforeldra þar sem kynmóðir hafði ekki óskað eftir umgengni. Nú sé sú staða breytt og hafi kynmóðir óskað eftir umgengni. Það sé því ekki lengur rétt að eina tenging stúlkunnar við kynforeldra sé í gegnum föður.

Þá telji kærandi það stúlkunni fyrir bestu að fá ró og stöðugleika í uppeldi barnsins og að því markmiði sé best náð með aukinni umgengni á milli stúlkunnar og föður, til að mynda í formi myndsímtala. Þá kemur fram að slík umgengni valdi litlu raski í hversdagslífi stúlkunnar og að jafnframt geti hún snúið sér strax aftur að daglegum athöfnum. Telji kærandi að það muni hjálpa stúlkunni að venjast því að kynfaðir hennar sé enn faðir hennar.

Starfsmenn Barnaverndar B taka ekki undir það sjónarmið kæranda að með því að auka umgengni á milli stúlkunnar og föður sé þannig náð ró og stöðugleika í uppeldi hennar. Ljóst sé af gögnum málsins að stúlkan hafi á sinni stuttu ævi gengið í gegnum ýmislegt og því telji Barnavernd B að stúlkan þurfi ró og frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni en slíku verði ekki náð með því að auka umgengni stúlkunnar við föður en eins og áður hefur komið fram hefur umgengni komið stúlkunni oftar en ekki úr jafnvægi. Telji Barnavernd B það ekki rétt að stúlkan geti átt umgengni í formi myndsímtala og snúið sér svo strax aftur að daglegum athöfnum eins og ekkert hafi í skorist. Stúlkan sé ung og óljóst hvort hún hafi mikið úthald í slíka umgengni og verði að telja líklegra en ekki að slíkt gæti komið henni úr jafnvægi og valdið ruglingi á heimili fósturforeldra og stúlkunnar. Þegar starfsmenn Barnaverndar B leggja mat á hvað teljist hæfileg umgengni barna í varanlegu fóstri við kynforeldra sína sé málið bókað á meðferðarfundi starfsmanna. Þann fund sitja fagaðilar sem starfa hjá Barnavernd B og hafa þekkingu og reynslu af barnaverndarmálum og vinna að hagsmunum barns og sú niðurstaða sem sé bókuð á meðferðarfundi sé ávallt með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Þá sé vísi kærandi til þess að minnkuð umgengni á þessu stigi muni ala á tengslarofi á milli aðila sem muni leiða til óstöðugleika og vanlíðanar í lífi stúlkunnar sem og stuðla að varanlegu tengslarofi við kynforeldra.

Slíkum fullyrðingum kæranda sé hafnað af hálfu barnaverndarnefndarinnar. Í matsgerð D sálfræðings, dags. 20. ágúst 2021, komi fram að ekki væri hægt að líta fram hjá því að síendurtekin rof á samskiptum föður við stúlkuna þegar hún hafi verið í hans umsjá hafi haft þau áhrif á tengslin að þau hafi þróast smám saman í þá átt að verða blendin og óörugg og að tengslarof sé til þess fallið að kveikja á óttakerfi barnsins. Í matsgerð hafi einnig komið fram að faðir hafi innsæisskort vegna tengsla sinna við stúlkuna og ofmeti getu sína gagnvart henni. Eins og áður hafi verið vísað til sé tilgangur umgengni í varanlegu fóstri að viðhalda þeim tengslum sem voru fyrir hendi þegar stúlkan hafi farið í fóstur og telji barnaverndarnefndin að sú umgengni sem ákvörðuð hafi verið með úrskurði nefndarinnar þann 8. nóvember 2022 uppfylla það markmið. Engin rök eru fyrir því að sú umgengni sem hafi verið úrskurðuð muni ala á tengslarofi eða óstöðugleika og/eða vanlíðan í lífi stúlkunnar heldur muni þvert á móti frekar koma á stöðugleika og ró hjá stúlkunni sem hún sé í mikilli þörf fyrir, að mati Barnaverndar B.

Að lokum vísi kærandi til þess að tvö stök skipti sem barnið vildi ekki fara til kæranda í umgengni eða skammvinn depurð barnsins í kringum umgengni sé ekki fullnægjandi röksemdafærsla fyrir því að það sé barninu fyrir bestu að minnka umgengni við kynforeldri.

Vísað sé í úrskurð Barnaverndarnefndar B þann 8. nóvember 2022 þar sem færð hafi verið rök fyrir úrskurðinum. Eins og ítrekað hafi komið fram sé það talið svo að stúlkan sé í þörf fyrir ró og stöðugleika til þess að aðlagast fósturfjölskyldu sinni þar sem nú liggur það fyrir að stúlkan sé í varanlegu fóstri og því stefnt að því hún verði í umsjá fósturforeldra sinna um ókomna tíð eða til 18 ára aldurs.

Úrskurður Barnaverndarnefndar B þann 8. nóvember 2022 hafi verið kveðinn upp með hagsmuni stúlkunnar í huga. Fyrir liggi að kærandi var á síðasta ári sviptur forsjá stúlkunnar sem þrátt fyrir ungan aldur hefur gengið í gegnum ýmislegt, þar á meðal ítrekaðar vistanir utan heimilis vegna lífernis foreldra sinna. Þá bjó stúlkan við mikinn óstöðugleika í umsjá foreldra en býr nú á fósturheimili þar sem hún fær þann stöðugleika, öryggi og stuðning sem hún er í brýnni þörf fyrir, að mati barnaverndarnefndarinnar.

Í 4. gr. barnaverndarlaga koma fram þær meginreglur sem gilda í barnaverndarstarfi. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi. Aðrir hagsmunir, svo sem hagsmunir foreldra, föður í þessu tilfelli, verða þar af leiðandi að víkja ef þeir stangast á við hagsmuni barnsins. Reglan kemur einnig fram í 1. tl. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Það sé því ljóst að stúlkan á rétt á því að njóta vafans í þessu máli og að hagsmunir kæranda verði að víkja fyrir hagsmunum stúlkunnar.

Með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi og með vísan til gagna málsins og úrskurðar nefndarinnar þann 8. nóvember 2022 er ítrekuð fyrri krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála.


 

IV. Afstaða fósturforeldra

Fósturforeldrar stúlkunnar mættu á fund Barnanefndarnefndar B þann 1. nóvember 2022 í gegnum fjarfundabúnað. Fósturfaðir vísaði til gagna málsins og sagði að nú snerist þetta um líðan stúlkunnar. Það þyrfti að koma stúlkunni í skilning um að hún væri ekki að fara frá fósturforeldrum og að fósturheimilið væri nú hennar heimili. Fósturmóðir sagði að stúlkan þekkti uppruna sinn og föður sinn, en það væri óróleiki hjá stúlkunni og hann yrði mikill í kringum umgengni, sérstaklega síðasta hálfa árið. Það verði nú að gefa stúlkunni tækifæri til að ná ró í fóstrinu. Fósturforeldrar skiluðu til starfsmanns afstöðu sinni fyrir fund nefndarinnar og sögðu að hæfileg umgengni í varanlegu fóstri væri nú tvisvar á ári, undir eftirliti og á O.

V. Afstaða barns

Talsmaður stúlkunnar ræddi við hana þann 27. október 2022 um umgengni við kæranda. Samkvæmt skýrslu talsmanns, dags. 28. október 2022, var stúlkan viðræðugóð og skýr við talsmann. Stúlkan sagðist þekkja föður sinn en tók fram að hún ætti „nefnilega tvo pabba og líka tvær mömmur.“ Stúlkan sagðist hlakka til að hitta föður sinn og alveg vilja gista hjá honum en fas hennar breyttist og virtist stúlkan sjá að sér, varð ókyrr og vildi svo frekar leika  með leikföng en að ræða við talsmann. Talsmaður taldi ekki gagnlegt að ræða frekar við stúlkuna um umgengi við kæranda þar sem stúlkan gaf það skýrt til kynna, að mati talsmanns, að umræðunni væri lokið af hennar hálfu.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan C er X ára gömul og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynfaðir stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði frá 8. nóvember 2022 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við stúlkuna fjórum sinnum á ári, í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni færi fram í húsnæði á vegum barnaverndaryfirvalda á O í febrúar, maí, ágúst og nóvember ár hvert. Í forsendum hins kærða úrskurðar kemur fram að umgengni kæranda við stúlkuna þurfi að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með ráðstöfun hennar í varanlegt fóstur. Það sé mat barnaverndarnefndarinnar að tillaga starfsmanna um umgengni tvisvar á ári fullnægi ekki því markmiði að stúlkan fái tækifæri til að viðhalda þeim tengslum sem hún eigi við föður sinn.

Kærandi krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að hann hafi umgengni við dóttur sína mánaðarlega, tvær klukkustundir í senn.

Til vara krefst kærandi þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að umgengni verði meiri og ef til vill önnur en sú sem lögð hafi verið til í úrskurðarorði hins kærða úrskurðar. Þá sé þess krafist að tekin verði afstaða til þess hvort faðir geti fengið aukna umgengni umfram fjögur skipti á ári í formi myndsímtala.

Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði. Verður því að meta kröfu kæranda sem beiðni um að hinum kærða úrskurði verði hrundið og vísað til meðferðar barnaverndarnefndar að nýju. Í þessu felst meðal annars að úrskurðarnefndin fjallar ekki um varakröfu kæranda um umgengni í formi myndsímtala.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar. Samkvæmt gögnum málsins er stúlkan í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum sínum og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B.

Samkvæmt gögnum málsins hefur stúlkan búið á núverandi fósturheimili frá því í desember 2020. Fram að þeim tíma bjó hún við mikinn óstöðugleika í umsjá foreldra. Stúlkan á að baki fimm vistanir á vistheimili barna en stúlkan var vistuð hjá kæranda á grundvelli b-liðar 67. gr. barnaverndarlaga frá 18. nóvember 2019 til 19. maí 2020. Þeirri vistun lauk þremur mánuðum fyrr en áætlað var vegna neyslu kæranda. Stúlkan er nú í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Í greinargerðum starfsmanna barnaverndar, sem lagðar voru fyrir barnaverndarnefnd, kemur fram það mat þeirra að það séu ekki hagsmunir stúlkunnar að eiga mikla umgengni við kæranda. Telja þeir mikilvægt að stúlkan fái frið og tækifæri til að viðhalda þeim stöðugleika, öryggi og ró sem sé að komast á líf hennar.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið Barnaverndarnefndar B og telur að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við kæranda verði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem hún er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan. Með því að takmarka umgengni er tilgangurinn að tryggja hagsmuni stúlkunnar og öryggi.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni kæranda við stúlkuna hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 8. nóvember 2022 varðandi umgengni C, við A, er staðfestur.

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum